Malbikstegundir

Hólabrú

Hólabrú - Malbik er framleitt úr steinefnum úr Hólabrúarnámu sem er staðsett norðan við Hvalfjarðargöng. Þetta er hefðbundið malbik sem notað er á göngustíga, plön, húsagötur og minni umferðargötur, (með umferð minna en 8.000 bíla árdagsumferð, ÁDU). Malbikið er framleitt í þremur mismunandi kornastærðum þ.e. 8 mm, 11 mm og 16 mm, ýmist með eða án viðloðunarefna.

Steinefnin úr Hólabrú eru dökkgrá að lit og uppfyllir malbikið allar gæðakröfur skv. Alverk '95.

Durasplitt

Durasplitt - malbik er malbik sem framleitt er úr ljósu kvars diorite sem er sér innflutt frá Noregi. Malbik úr þessu steinefni er notað á umferðarþyngri götur eða þar sem umferð er meiri en 8.000 ÁDU og einnig þar sem krafist er þeirra ljóstæknieiginleika sem efnið gefur. Efnið er ljóst og endurkastar það birtu mun betur en dökk steinefni. Lýsing nýtist því betur og jafnvel má spara götulýsingu. Malbikið er yfirleitt framleitt í þremur mismunandi kornastærðum þ.e. 8mm, 11mm og 16mm. Malbik sem framleitt er úr Durasplitt uppfyllir allar gæðakröfur skv. Alverk ´95.

SMA-Trefjamalbik

SMA-Trefjamalbik (Stone Mastik Asphalt) er yfirleitt framleitt úr Durasplitt steinefnum ásamt trefjaefnum sem blandað er út í malbikið. SMA malbik hentar vel á umferðaþyngstu göturnar (umferð meiri en 15.000 ÁDU). SMA malbik er mjög slitþolið og hefur mikið hemlunarviðnám. Malbikið er framleitt í þremur mismunandi kornastærðum þ.e. 8mm, 11mm og 16mm. SMA malbik uppfyllir allar gæðakröfur samkvæmt Alverk ´95.

Malbik með vaxi

MALBIK MEÐ VAXI hefur verið bætt við framleiðslu Malbikunarstöðvar Hlaðbæjar Colas. MHC býður nú upp á malbik sem er betrumbætt með vaxi. Með því að bæta við 1-3% (bindiefnisinnihalds) af vaxi lengist sá tími sem hægt er að vinna með malbikið á verkstað. Með venjulegu malbiki er ekki ráðlagt að þjappa efnið við lægra hitastig en u.þ.b. 70°C en með því að bæta vaxi í malbikið verður hægt að þjappa efnið áfram að 40°C. Yfir sumarið þegar hlýtt er í veðri veitir vaxið einnig möguleika á því að minnka hitastigið í framleiðslunni úr 160°C í 120°C. Þetta þýðir orkusparnað, minni reyk frá efninu og minni umhverfisáhrif. Vaxið sem er notað heitir Sasobit, það er framleitt úr (synthetic paraffin) af Sasol í Suður Afríku og er í Kúluformi (ca 3mm). Það bráðnar strax við blöndun í heitt bik. Margar rannsóknir benda einnig til þess að þegar efnið kólnar eykur vaxið styrkleika gagnvart hjólfaramyndun, malbikið verður stífara. Þetta hefur góð áhrif á malbik fyrir vegi með mikinn umferðarþunga.

Rautt-Malbik

Rautt malbik er framleitt úr sérinnfluttum rauðum steinefnum ásamt litarefnum. En steinefnin eru með allra sterkasta móti. Þetta malbik hefur verið notað á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir sérmerktar strætisvagna- og leigubílaakreinar. Malbikið er yfirleitt framleitt í 11mm eða 16mm kornastærð. Þar sem malbikið er framleitt úr rauðum steinefnum upplitast það ekki þrátt fyrir mikla umferð. Malbikið uppfyllir allar gæðakröfur samkvæmt Alverk ´95.

Einnig er hægt að blanda rauðu litarefni í hefðbundið malbik en slíkt hentar aðeins þar sem umferðarálag er lítið þar. En litur steinefnanna kemur í ljós þegar malbikið fer að slitna. Slíkt malbik gæti hentað vel á leiksvæði, göngustíga eða önnur svæði með litlu álagi. En töluverður verðmunur er á á þessum tveimur tegundum.

Kalt viðgerðarmalbik

Kalt viðgerðarmalbik er framleitt úr steinefnum úr Hólabrúarnámu. Þetta er hefðbundið malbik blandað íblöndunarefnum sem gera það að verkum að það helst mjúkt í töluverðan tíma svo það er hægt að vinna með efnið kalt. Það hentar því vel í smáviðgerðir og til viðgerða að vetrarlagi. Efnið er hægt að geyma í lengri tíma, úti jafnt sem inni. Malbikið er framleitt í tveimur mismunandi kornastærðum þ.e. 8mm og 11mm.