100% Endurunnið malbik

Nú eru liðin fjögur ár frá bankahruni og hafa verktakar barist í bökkum síðan. Algjört hrun varð á verkefnaframboði og slegist hefur verið um hvern bita. Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas hf. hefur ekki farið varhluta af því hvernig ástandið hefur verið. Stjórnendur fyrirtækisins tóku hinsvegar strax þann pólinn í hæðina að efla vöruþróun og nýsköpun á þessum erfiðu tímum.

Þannig hefur Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas nýtt tímann vel í vöruþróun í malbiki, bæði með áherslu nýjar og ódýrari vörur en einnig endingarbetra malbik. Fyrirtækið hefur á sl. tveimur árum fengið úthlutað rannsóknarstyrkjum frá Vegagerðinni, nú síðast vegna verkefnis sem byggir á 100% endurnýtingu gamals malbiks í ný slitlög og kallast verkefnið "100% endurunnið kaldblandað malbik".

Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas hefur verið að horfa meira og meira til umhverfisþátta og endurnýtingu hráefna og vill leggja sitt af mörkum til verndunar náttúru, umhverfis og auðlinda. Verkefnið var unnið í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila og er afraksturinn sá að fyrirtækið getur nú boðið upp á 100% endurunnið malbik sem er bæði hagkvæmt og lofar góðu varðandi endingu. Hefur efnið þegar verið lagt út á Krýsuvíkurveg við Seltún og á ýmsa göngustíga fyrir Grindavíkurbæ. Verkefnið var kynnt á  rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar nú í nóvember.

Bæjarfélagið er ekki síst ánægt með að geta nýtt 100% endurunnið hráefni og lagt þannig "Grænt malbik" á stíga bæjarins. Grindavík leggur mikið upp úr endurvinnslu og verndun náttúru. Gangandi og hlaupandi vegfarendur hafa verið mjög ánægðir með nýju göngustígana og hefur verið rætt um að þeir séu mýkri undir fót en hefðbundið malbik og dempa meira þau högg sem leiða upp í líkamann við göngu eða hlaup.

"100% endurunnið kaldblandað malbik" er aðeins eitt af þeim fjölmörgu nýsköpunar og þróunarverkefnum sem fyrirtækið hefur unnið að á undanförnum árum. Auk þess má nefna tilraunir með endurvinnslu og nýtingu á öðrum hráefnum í malbik og verkefni um sérstaklega endingargott malbik eða svokallaða PMA malbik. Það verkefni fékk úthlutað styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar árið 2011 og var malbikið meðal annars lagt á Bústaðaveginn í Reykjavík sumarið 2011 og á Reykjanesbraut 2012. PMA malbik hefur mikinn styrk og ákveðna teygju eiginleika sem eykur endingu malbiks og spornar við hjólfaramyndun. 

Fyrirtækið vinnur nú að frekari þróunarvinnu og verða spennandi nýjungar settar á markað á næsta ári. Fyrir veghaldara er hagkvæmni og umhverfisvernd þau megin sjónarmið sem líta ber til á næstu árum þegar bættur hagur leiðir til þess að auknu fé verður varið til viðhalds og nýbyggingar vega. 

Kaldblöndun - 100% Endurnnið malbik
Verksmiðjan